Fjórir íslenskir knattspyrnumenn tóku þátt í upphafsleik norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar Rosenborg tók á móti Viking frá Stavanger í Þrándheimi í dag.
Rosenborg sigraði, 1:0, með marki frá Adrian Pereira á 57. mínútu. Þá voru framherjar liðsins, Kristall Máni Ingason og Ísak Snær Þorvaldsson, nýfarnir af velli en þeim var báðum skipt út af á 55. mínútu.
Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark Viking í leiknum og Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður á 70. mínútu og lék sinn fyrsta leik með liðinu í tæp tólf ár.
Víkingarnir voru manni færri frá 76. mínútu þegar Shayne Pattynama fékk rauða spjaldið.