Keppni í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í karlaflokki hefst í dag, rétt eins og í þeirri íslensku, en einum leikjanna hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita hjá einu liðanna.
Strömsgodset, sem varnarmaðurinn Ari Leifsson leikur með, getur ekki mætt til leiks gegn Lilleström á útivelli en liðin áttu að mætast klukkan 15 í dag að íslenskum tíma.
Tíu leikmenn Strömsgodset eru smitaðir, ásamt tveimur úr starfsliðinu. Á heimasíðu félagsins segir að margir þeirra hafi verið rúmliggjandi með hita en aðrir hafi fengið vægari einkenni.
Í tilkynningu frá félaginu segir að unnið sé samkvæmt verklagsreglum Olympiatoppen, norsku afreksíþróttanna, um íþróttafólk sem veikist af kórónuveirunni.