Enska meistaraliðið Manchester City stendur afar vel að vígi í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta eftir sigur gegn þýska meistaraliðinu Bayern München á heimavelli í Manchester, 3:0, í kvöld.
Inter Mílanó er líka í góðri stöðu eftir útisigur gegn Benfica í Lissabon, 2:0. Nicolo Barella skoraði á 51. mínútu og Romelu Lukaku bætti við marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu.
City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum gegn Bayern og komst yfir á 27. mínútu þegar Rodri skoraði með glæsilegu skoti rétt utan vítateigs upp í vinstra hornið, 1:0.
Bayern byrjaði seinni hálfleikinn vel og Ederson í marki City varði þrjú hörkuskot frá Leroy Sané á fyrstu tíu mínútunum.
Eftir tvísýna baráttu kom vendipunktur leiksins á 70. mínútu. Dayot Upamecano gerði alvarleg varnarmistök, missti boltann og Erling Haaland slapp inn í vítateiginn vinstra megin. Hann lyfti boltanum fyrir markið á Bernardo Silva sem skoraði með skalla, 2:0.
City gekk á lagið og á 76. mínútu skoraði Haaland af stuttu færi, 3:0, eftir að John Stones skallaði boltann til hans.
Erfitt verður fyrir Bayern að vinna þennan mun upp í síðari leik liðanna í München.