Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Antonio Cassano var ómyrkur í máli þegar hann ræddi um portúgalska knattspyrnustjórann José Mourinho á dögunum.
Cassano, sem er fertugur, gerði garðinn frægan með liðum á borð við Roma og Real Madrid en hann starfar í dag sem sparkspekingur.
Mourinho og Cassano hafa skotið föstum skotum hvor á annan síðustu vikurnar en Cassano kallaði Portúgalann meðal annars latan á meðan Mourinho gerði lítið úr leikmannaferli leikmannsins.
„Ég hef aldrei talað illa um Mourinho sem persónu,“ sagði Cassano í YouTube-þættinum Bobo TV.
„Ég mun halda áfram að gagnrýna hann sem þjálfara og hann getur tekið þetta bikarsafn sitt og troðið því þar sem sólin skín ekki.
Hann vann þessa bikara með því að spila hundleiðinlegan fótbolta og hann þarf að gera sér grein fyrir því að hann er lélegur þjálfari,“ sagði Cassano meðal annars.