Eitthvað hefur tap FC Köbenhavn fyrir Randers í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á annan í páskum farið illa í stuðningsmenn Kaupmannahafnarliðsins.
Á Twitter-aðgangi Randers voru birtar ljósmyndir af salernisaðstöðu félagsins eftir heimsókn FC Köbenhavn, þar sem búið var að gjöreyðileggja tvö klósett og vask.
„Kæru „stuðningsmenn“ FC Köbenhavn. Takk fyrir komuna og stórt hrós til ykkar fyrir að skapa frábæra stemningu.
En gætuð þið vinsamlegast hætt að rústa klósettunum? Við gerum okkur grein fyrir því að við gáfum ykkur leyfi til þess að hoppa í stúkunni en…“
Randers vann leikinn 1:0, sem þýddi að Nordsjælland endurheimti toppsæti deildarinnar af Köbenhavn með því að vinna sinn leik sama dag.
„Okkur þykir mjög leitt að sjá þetta. Þetta er heimskulegt hvernig sem á það er litið. Við höfum rætt við stuðningsmannahópa okkar, sem fordæma sömuleiðis svona hegðun.
Við munum festa kaup á tveimur klósettum og vaski og komum þeim til Randers,“ sagði í svari frá Twitter-aðgangi FC Köbenhavn við færslu Randers.