Wojciech Szczesny, pólskur markvörður Juventus, þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik í leik liðsins gegn Sporting frá Lissabon í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöldi.
Szczesny fann til óþæginda undir lok fyrri hálfleiks og reyndist vera um hjartsláttartruflanir að ræða.
Markverðinum reynslumikla virtist verulega brugðið og gekk grátandi af velli.
Juventus tilkynnti í morgun að Szczesny „hefði það gott“ eftir að hafa gengist undir læknisskoðanir og staðfesti hann skömmu síðar sjálfur á Twitter-aðgangi sínum að hann hefði það fínt.