Jacob Neestrup, knattspyrnustjóri FC Köbenhavn, kveðst hæstánægður með lánsdvöl Orra Steins Óskarssonar hjá SönderjyskE í dönsku B-deildinni.
Orri Steinn hefur látið vel að sér kveða og skorað tvö mörk í síðustu þremur leikjum fyrir liðið. Neestrup telur lánsdvölina muni koma sér vel fyrir Danmerkurmeistara Köbenhavn og Orra Stein sjálfan.
„Planið er að Orri komi betri til baka í sumar. Við erum mjög ánægðir með samninginn sem við gerðum við SönderjyskE og Orra.
Þetta er fullkomið fyrir hann og fullkomið fyrir okkur. Sem stendur er útlit fyrir að þetta sé líka að koma sér vel fyrir fyrir SönderjyskE, þannig að við erum mjög ánægðir með það,“ sagði Neestrup í samtali við Bold.dk.
„Við erum í stöðugu sambandi við hann, ræðum við hann í hverri viku. Ég ræddi persónulega við hann fyrir rúmri viku.
Það er ánægjulegt að sjá að Orri sé að leggja sitt af mörkum til þess að SönderjyskE vinni nokkra fótboltaleiki um þessar mundir,“ hélt hann áfram.
Spurður hvort hinn 18 ára gamli Orri Steinn gæti fengið stórt hlutverk hjá Köbenhavn í náinni framtíð sagði Neestrup, sem lék með FH árið 2010:
„Við höfum trú á Orra, annars hefðum við ekki lánað hann til sterks B-deildar liðs“.