Gylfi Þór verður ekki ákærður

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu árið 2020.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu árið 2020. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki ákærður fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi og er því laus allra mála.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins en fótbolti.net greindi fyrstur frá allra miðla.

Gylfi Þór, sem er 33 ára gamall, var handtekinn í júlí árið 2021 grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi en hann var þá samningsbundinn Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið rann út síðasta sumar og Gylfi hefur því verið án félags síðan en hann var settur til hliðar hjá félaginu þegar að hann var handtekinn.

Óvíst er hvað tekur við hjá leikmanninum sem á að baki 318 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur skorað 67 mörk og lagt upp önnur 52.

Þá á hann að baki 78 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 25 mörk en hann var mikilvægasti leikmaður íslenska karlalandsliðsins á árunum 2012 til 2021.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka