„Hræðilegur varnarleikur“

Tyrell Malacia skoraði klaufalegt sjálfsmark í gærkvöldi.
Tyrell Malacia skoraði klaufalegt sjálfsmark í gærkvöldi. AFP/Darren Staples

Lýsendur og leikgreinendur BT Sport létu hollenska bakvörðinn Tyrell Malacia, leikmann Manchester United, heyra það í kjölfar þess að hann skoraði afar slysalegt sjálfsmark í 2:2-jafntefli liðsins gegn Sevilla í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöldi.

Malacia svaf á verðinum og stýrði fyrirgjöf Jesús Navas í eigið mark.

Robbie Savage, fyrrverandi leikmaður Man. United, var meðlýsandi leiksins og sagði um sjálfsmarkið, sem sá til þess að Sevilla minnkaði muninn í 2:1 seint í leiknum:

„Malacia slekkur á sér. Hann verður að bregðast við. Hann veit að Navas er þarna. Við sjáum að hann [Malacia] sleppir bara boltanum, hann heldur að hann sé að fara út af. Þetta er hræðilegur varnarleikur.“

Áttar sig ekki á hættunni

Paul Scholes, goðsögn hjá Man. United, rýndi í leikinn að honum loknum og tók í sama streng og Savage.

„Malacia hefði svo sannarlega átt að bregðast við í þessu fyrra marki en gerði það ekki. Upp frá því var þetta erfitt kvöld.

[Youssef] El-Nesyri reyndist erfiður eftir að hann kom inn á, hann leit vel út í loftinu. Malacia verður að bregðast við því. Hann getur ekki látið boltann skoppa, hann verður að mæta boltanum og hreinsa frá.

Hann áttar sig ekki á hættunni fyrir aftan sig. Þar er hættan. Þetta er auðveld sending, hreinsaðu hana frá með hægri fæti. Þú mátt ekki láta boltann skoppa.

Kannski hélt hann að boltinn myndi renna áfram en upp frá þessu bættist grátt ofan á svart. Núna koma til meiðsli og leikbönn. Svo ná þeir öðru markinu inn,“ sagði Scholes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert