Beerschot vann í kvöld afar öruggan 4:0-sigur á varaliði Club Brugge í B-deild belgíska fótboltans.
Nökkvi Þeyr Þórisson var í byrjunarliði Beerschot, skoraði þriðja mark liðsins, og fór af velli á 85. mínútu. Liðið er í 4. sæti með 46 stig, 13 stigum á eftir toppliði Molenbeek.
Markið var kærkomið fyrir Nökkva, því hann skoraði síðast 4. desember í 3:2-sigri á Dender. Markið var það sjötta hjá sóknarmanninum á leiktíðinni.
Þá skoraði Kolbeinn Þórðarson þriðja mark Lommel í 4:1-heimasigri á Deinze. Kolbeinn lék allan leikinn fyrir Lommel, sem er í efsta sæti fallkeppninnar með 34 stig, langt fyrir ofan liðin í fallbaráttunni.