Bayern og Dortmund misstigu sig bæði

Leikmenn Stuttgart fagna ótrúlegu jafntefli gegn Borussia Dortmund.
Leikmenn Stuttgart fagna ótrúlegu jafntefli gegn Borussia Dortmund. AFP/Thomas Kienzle

Bayern München og Borussia Dortmund töpuðu bæði mikilvægum stigum í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Dortmund heimsótti Stuttgart og náði 2:0 forystu eftir rúmlega hálftíma leik með mörkum frá Sébastien Haller og Donyell Malen.

Kostas Mavropanos, varnarmaður Stuttgart, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt skömmu fyrir leikhlé og léku heimamenn því einum færri það sem eftir lifði leiks.

Stuttgart lét liðsmuninn ekkert á sig fá og skoraði Sehrou Guirassy snemma í síðari hálfleik, en VAR dæmdi markið af vegna rangstöðu.

Tólf mínútum fyrir leikslok minnkaði hins vegar Tanguy Coulibaly muninn fyrir heimamenn og aðeins sex mínútum síðar jafnaði Josha Vagnoman metin.

Á þriðju mínútu uppbótartíma virtist Gio Reyna vera að tryggja Dortmund dramatískan sigur þegar hann kom gestunum yfir að nýju en Silas Katompa Mvumpa hélt nú ekki og jafnaði metin á ný á sjöundu mínútu uppbótartíma.

Lokatölur því 3:3.

Bayern fékk Hoffenheim í heimsókn og gerði sömuleiðis jafntefli, 1:1.

Benjamin Pavard kom Bæjurum í forystu eftir 17 mínútna leik áður en Andrej Kramaric jafnaði metin fyrir Hoffenheim á 73. mínútu.

Staðan á toppi þýsku deildarinnar er því óbreytt þar sem Bayern er á toppnum, nú með 59 stig, og Dortmund er áfram í öðru sæti, nú með 57 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert