Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, átti stórleik fyrir OH Leuven þegar liðið vann afar öruggan útisigur á Oostende þegar liðin áttust við í belgísku A-deildinni í dag.
Jón Dagur lék allan leikinn fyrir Leuven og kom liðinu í 3:0 eftir tæplega klukkutíma leik með marki úr vítaspyrnu.
Undir lok leiksins lagði hann svo upp fjórða markið fyrir Nachon Nsingi.
Jón Dagur hefur leikið afskaplega vel fyrir Leuven á tímabilinu, hans fyrsta hjá félaginu, og skorað tíu mörk í 30 deildarleikjum ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar.