Real Madríd vann góðan útisigur á Cádiz, 2:0, er liðin mættust í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld.
Markalaust var lengi vel áður en Nacho kom gestunum loks yfir á 72. mínútu eftir sendingu Aurélien Tchouaméni.
Fjórum mínútum síðar innsiglaði Marco Asensio svo sigur Madrídinga eftir undirbúning Federico Valverde.
Með sigrinum minnkaði Real forskot toppliðs Barcelona niður í tíu stig, en Börsungar eiga hins vegar leik til góða og geta því náð 13 stiga forskoti að nýju.