Julia Grosso reyndist hetja Juventus þegar liðið tók á móti Fiorentina í ótrúlegum leik í efri hluta ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu í dag.
Leiknum lauk með sigri Juvenus, 4:3, en Grosso skoraði sigurmark Juventus á 81. mínútu.
Michela Catena, Annahita Zamanian og Stephanie Breitner skoruðu mörk Fiorentina í fyrri hálfleik áður en Cristiana Girelli minnkaði muninn undir lok hálfleiks og staðan því 3:1 í hálfleik, Fiorentina í vil.
Lineth Beerensteyn, Barbara Bonansea og Grosso voru svo allar á skotskónum fyrir Juventus í síðari hálfleik en Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn með Juventus á meðan Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Fiorentina á 64. mínútu.
Juventus er með 49 stig í öðru sæti deildarinnar, 8 stigum minna en topplið Roma, en Fiorentina er í þriðja sætinu með 38 stig.