Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Federico Valverde, leikmaður Real Madríd, á yfir höfði sér langt leikbann eftir að hafa rekið Álex Baena, leikmann Villarreal, hnefahögg í andlitið eftir leik liðanna í spænsku 1. deildinni fyrr í mánuðinum.
Spænski miðillinn AS greinir frá því að sérstök nefnd gegn ofbeldi í íþróttum á Spáni hafi fundað í dag og farið yfir málið. Hafði nefndin læknaskýrslu Baena og lögregluskýrslu til hliðsjónar.
Að fundinum loknum vísaði nefndin málinu til aganefndar spænska knattspyrnusambandsins.
Bæði Valverde og Baena verða kallaðir fyrir aganefndina til þess að greina frá sinni hlið.
Samkvæmt AS mun Valverde verða úrskurðaður í leikbann sem mun gilda allt frá fjórum til tólf leikja.
Valverde kýldi Baena í andlitið á bílastæði fyrir utan Santiago Bernabeu-leikvanginn eftir leik liðanna. Sagði Úrúgvæinn að Baena hefði gert lítið úr því að Valverde og kærasta hans hafi óttast að missa fóstur í febrúar síðastliðnum.