Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er eftirsóttur á Ítalíu, en hann hefur leikið vel með Genoa í B-deildinni þar í landi á þessari leiktíð.
Sportal greinir frá að félög á borð við Fiorentina og Sassuolo horfi til Alberts, sem hefur skorað átta mörk í B-deildinni á leiktíðinni og ellefu mörk í öllum keppnum. Þá hefur hann lagt upp fimm til viðbótar.
Albert er í miklum metum hjá Genoa og vill félagið um 10 milljónir evra fyrir sóknarmanninn.
Albert hefur ekki leikið með íslenska landsliðinu að undanförnu, þar sem hann og fyrrverandi landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson náðu illa saman.
Åge Hareide, sem tók við landsliðinu á föstudag, sagði á blaðamannafundi í gær að Albert yrði í næsta landsliðshópi.