Englandsmeistarar Manchester City tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með 1:1-jafntefli á útivelli gegn Bayern München í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum. City mætir Real Madrid í undanúrslitum.
City vann fyrri leikinn á heimavelli 3:0 og einvígið samanlagt 4:1. Staðan í hálfleik í kvöld var markalaus, en Erling Haaland skaut yfir úr víti á 37. mínútu.
Norðmaðurinn bætti upp fyrir það með fyrsta markinu á 57. mínútu. Bayern lagaði stöðuna í einvíginu Joshua Kimmich skoraði úr víti á 83. mínútu, en nær komust Þýskalandsmeistararnir ekki.
Inter Mílanó tryggði sér einnig sæti í undanúrslitum með 3:3-jafntefli á heimavelli gegn Benfica. Inter vann fyrri leikinn 2:0 og einvígið 5:3-samanlagt. Inter mætir AC Milan í Mílanóslag í undanúrslitum.
Nicoló Barella kom Inter yfir á 14. mínútu, en Frederik Aursnes jafnaði á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Lautaro Martínez kom Inter aftur yfir á 65. mínútu og Joaquín Correa breytti stöðunni í 3:1 á 78. mínútu. António Silva og Petar Musa gerðu tvö mörk fyrir Benfica í blálokin, en það reyndist of lítið og of seint.