Meiðslavandræði hjá Madrídingum

Joao Félix og David Alaba eigast við í gærkvöldi.
Joao Félix og David Alaba eigast við í gærkvöldi. AFP/Javier Soriano

Tveir lykilmenn Real Madríd fóru meiddir af velli þegar liðið lagði Chelsea að velli, 2:0, í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Miðvörðurinn David Alaba meiddist aftan á læri og fór því af velli í leikhléi og Karim Benzema meiddist á fæti og var tekinn af velli tæpum 20 mínútum fyrir leikslok.

„Alaba á í vandræðum aftan á læri og gat því ekki haldið leik áfram. Karim Benzema fékk einnig högg og þess vegna skipti ég honum af velli.

Það var traðkað á fæti hans og honum fór að verkja undir lokin. Þess vegna skipti ég honum af velli,“ sagði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, á blaðamannafundi eftir leik.

Madríd vann einvígið samanlagt 4:0 og mætir annað hvort Manchester City eða Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Í fyrri undanúrslitaleiknum verða Madrídingar einnig án Éder Militao, sem mun taka út leikbann.

„Það fór svolítið um mig þegar Éder Militao fékk gula spjaldið því margir kröfðust þess að hann fengi rautt spjald, sem hefði gert okkur erfitt fyrir.

Okkur mun vanta Militao í fyrri undanúrslitaleiknum en vonandi verður Alaba kominn til baka fyrir þann leik,“ sagði Ancelotti einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert