„Draumakvöld fyrir okkur“

Lucas Ocampos og Youssef En-Nesyri, sem skoraði tvö mörk í …
Lucas Ocampos og Youssef En-Nesyri, sem skoraði tvö mörk í gærkvöldi, fagna fræknum sigri Sevilla á Manchester United í gærkvöldi. AFP/Cristina Quicler

Lucas Ocampos, kantmaður Sevilla, var í skýjunum eftir 3:0-sigur liðsins á Manchester United í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöldi.

„Þetta var draumakvöld fyrir okkur alla. Þetta var nærri því fullkominn leikur. Stjórinn sagði okkur að hafa trú á okkur sjálfum, þeim gæðum sem við búum yfir og spilamennsku okkar og njóta leiksins,“ sagði Ocampos í samtali við heimasíðu UEFA.

Sevilla hefur ekki gengið sem skildi heima fyrir á tímabilinu þar sem liðið er í 13. sæti í spænsku 1. deildinni. Sevilla var lengi vel í harðri fallbaráttu en hefur undanfarið verið að fjarlægjast fallsvæðið, er nú átta stigum fyrir ofan það.

Þá er ávallt hægt að reiða sig á að Sevilla standi sig vel í Evrópudeildinni enda hefur liðið unnið keppnina oftast allra, sex sinnum, og er nú komið í undanúrslitin. Erfitt verkefni bíður þar gegn Juventus.

„Árið hefur verið okkur erfitt og stuðningsmennirnir áttu skilið svona leik. Samheldnin milli stuðningsmannanna og leikmannanna var fullkomin,“ bætti Ocampos við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert