Lucas Ocampos, kantmaður Sevilla, var í skýjunum eftir 3:0-sigur liðsins á Manchester United í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöldi.
„Þetta var draumakvöld fyrir okkur alla. Þetta var nærri því fullkominn leikur. Stjórinn sagði okkur að hafa trú á okkur sjálfum, þeim gæðum sem við búum yfir og spilamennsku okkar og njóta leiksins,“ sagði Ocampos í samtali við heimasíðu UEFA.
Sevilla hefur ekki gengið sem skildi heima fyrir á tímabilinu þar sem liðið er í 13. sæti í spænsku 1. deildinni. Sevilla var lengi vel í harðri fallbaráttu en hefur undanfarið verið að fjarlægjast fallsvæðið, er nú átta stigum fyrir ofan það.
Þá er ávallt hægt að reiða sig á að Sevilla standi sig vel í Evrópudeildinni enda hefur liðið unnið keppnina oftast allra, sex sinnum, og er nú komið í undanúrslitin. Erfitt verkefni bíður þar gegn Juventus.
„Árið hefur verið okkur erfitt og stuðningsmennirnir áttu skilið svona leik. Samheldnin milli stuðningsmannanna og leikmannanna var fullkomin,“ bætti Ocampos við.