Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, sýtti dýrkeypt varnarmistök í 0:3-tapi liðsins fyrir Sevilla í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Sevilla vann einvígið samanlagt 5:2 og mætir Juventus í undanúrslitunum.
Fyrsta mark leiksins í gærkvöldi kom eftir aðeins átta mínútna leik í kjölfar hræðilegra mistaka markvarðarins David de Gea og miðvarðarins Harry Maguire.
De Gea gerði sig svo aftur sekan um hræðileg mistök í þriðja markinu. Án þess að nefna nein nöfn sagði ten Hag að slík mistök væru einfaldlega ekki í boði.
„Það er alveg ljóst að þegar við gerum svona mistök er erfitt að vinna fótboltaleik. Þetta er vandamál og við þurfum að gangast við því,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi eftir leik.
Man. United mætir næst Brighton & Hove Albion í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley í Lundúnum.
„Gegn Brighton fáum við tækifæri til þess að vinna úr og leiðrétta þessi mistök. Þið sáuð það sama og ég. Við vorum ekki ekki rólegir eða yfirvegaðir.
Frammistaðan var óviðunandi. Við verðum að vera betri. Þetta snýst um karakter. Leikmenn mínir búa yfir þeim karakter sem til þarf til þess að koma til baka,“ bætti ten Hag við.