Leah Williamson, fyrirliði Evrópumeistara Englands og varafyrirliði Arsenal, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik Arsenal gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna á dögunum og verður því lengi frá.
Williamson, sem leikur í stöðu miðvarðar, átti lykilþátt í að England vann Evrópumeistaratitilinn á heimavelli síðastliðið sumar og er sömuleiðis lykilmaður hjá Arsenal.
Félagið tilkynnti í dag að illu heilli hafi fremra krossband í hné Williamson slitnað í leiknum gegn Man. United. Því má vænta þess að hún verði frá um níu til tólf mánaða skeið.
Því missir Williamson af HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar og einnig af stórum hluta næsta tímabils.