Scholes ósáttur við Eriksen

Christian Eriksen í leiknum í gær.
Christian Eriksen í leiknum í gær. AFP/Jorge Guerrero

Paul Scholes, goðsögn hjá Manchester United, mislíkaði hvernig Christian Eriksen, miðjumaður liðsins, bar sig í viðtali eftir 0:3-tap þess fyrir Sevilla í Evrópudeildinni í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Í samtali við BT Sport eftir leikinn á Spáni var Eriksen brosandi er hann sagði að liðið hafi einfaldlega ekki átt sinn besta dag.

„Við gerðum fleiri mistök en við erum vanir að gera og ég tel að allt liðið hafi ekki náð að vinna úr mistökunum sem liðsfélagarnir gerðu. Svona er fótboltinn.

Stundum áttu góða daga og stundum áttu slæma daga. Í dag [í gær] áttum við einn af slæmu dögunum okkar. Við reyndum allt sem í valdi okkar stóð til að koma í veg fyrir það en stundum gengur það ekki upp,“ sagði Eriksen.

Scholes, sem var sérfræðingur BT Sport í kringum leikinn, fannst ekki beint vera ástæða til að brosa og sagði:

„Hann virðist ansi hress þarna hann Christian. Ég hef ekki eina einustu hugmynd um af hverju“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert