Íslendingalið Bayern München endurheimti toppsæti þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu með stórsigri á Freiburg, 8:2, í dag.
Bæjarar gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik þar sem sex af mörkum liðsins komu í honum.
Staðan var 6:0 í hálfleik áður en Freiburg minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik. Bæjarar bættu svo við tveimur mörkum til viðbótar undir lokin auk þess sem Freiburg skoraði sárabótamark.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Bayern og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á sem varamaður á 63. mínútu. Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ekki í leikmannahópnum.
Bayern er á toppnum með 49 stig á meðan Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg eru skammt undan með 48 stig í öðru sæti.
Bæði lið hafa leikið 18 leiki og eiga fjóra leiki eftir í deildinni.