Juventus laut í lægra haldi fyrir Roma, 2:3, í toppslag ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu kvenna í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn á miðjunni hjá Juventus, sem hefði þurft á sigri að halda til þess að saxa á forskot toppliðs Roma.
Juventus náði forystunni í tvígang en heimakonur í Roma jöfnuðu metin jafnharðan í bæði skiptin. Undir lok leiks tryggði Roma sér svo sigurinn.
Roma er nú með tíu stiga forskot á Juventus í öðru sætinu og á ítalska meistaratitilinn vísan. Fimm umferðir eru óleiknar í efri hluta deildarinnar.