Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn og lagði upp þriðja mark DC United í sigri á Orlando City, 3:1, í Íslendingaslag. Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 68. mínútu í liði Orlando.
DC er í 8. sæti Austurdeildar með 11 stig eftir níu leiki en Orlando er sæti neðar með jafn mörg stig eftir átta leiki.
Róbert Orri Þorkelsson, leikmaður CF Montréal og Þorleifur Úlfarsson, leikmaður Houston Dynamo, voru báðir ónotaðir varamenn í sigrum sinna liða. Montréal lagði New York Red Bulls á heimavelli, 2:0, á meðan Houston vann sigur á Inter Miami, 1:0, einnig á heimavelli.
Montréal er í 15. og neðsta sæti Austurdeildar með sex stig eftir átta leiki en Houston er í 6. sæti Vesturdeildar með 13 stig eftir átta leiki.
Þá var Svava Rós Guðmundsdóttir allan tímann á varamannabekk Gotham í sigri á North Carolina Courage, 1:0. Gotham er í þriðja sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki.