Napolí vann dramatískan útisigur á Juventus, 1:0, í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld.
Sigurmark Napolí kom á þriðju mínútu uppbótartímans en Ítalinn Giacomo Raspadori sá um að skora það.
Juventus fékk á fimmtudaginn var 15 stigin sín sem dregin voru af því snemma á tímabiliu til baka, eftir að áfrýjun félagsins skilaði árangri. Með því komst Juventus alla leið upp í þriðja sætið með 59 stig, sex á undan AC Milan í fimmta og átta á undan Inter Mílanó í sjötta.
AC Milan vann Þóri Jóhann Helgason og félaga í Lecce, 2:0, í Mílanó. Þar fór Portúgalinn Rafael Leao enn og aftur á kostum og skoraði bæði mörk Milan. Þórir Jóhann sat allan leikinn á bekknum.
Nágrannarnir í Inter Mílanó unnu útisigur á Empolí, 3:0. Belginn Romelu Lukaku skoraði tvö mörk og Argentínumaðurinn Lautaro Martínez eitt.
Staðan hjá efstu sex liðum deildarinnar er eftirfarandi, en Napolí þarf aðeins fimm stig úr síðustu sjö leikjum sínum til að tryggja sér titilinn.
1. Napolí - 78 stig
2. Lazio - 61 stig
3. Juventus - 59 stig
4. Roma - 56 stig
5. AC Milan - 56 stig
6. Inter Mílanó - 54 stig