Á annað hundrað manns í bann

Romelu Lukaku fagnar með því að sussa í leik Inter …
Romelu Lukaku fagnar með því að sussa í leik Inter gegn Empoli í ítölsku A-deildinni í gær. AFP/Tizian Fabi

Lögreglan í Tórínó á Ítalíu hefur borið kennsl á alls 171 stuðningsmann Juventus sem gerðust uppvísir að kynþáttaníði í garð belgíska knattspyrnumannsins Romelu Lukaku, leikmanns Internazionale frá Mílanó, í leik liðanna í ítölsku bikarkeppninni fyrr í mánuðinum.

La Gazzetta dello Sport greinir frá því að lögreglan hafi ákveðið að meina hverjum þeirra að fara á knattspyrnuleiki í landinu, þó ekki komi fram hversu lengi bannið gildir. Stuðningsmennirnir fengu einnig sekt fyrir athæfi sitt.

Lukaku jafnaði metin í 1:1 seint í fyrri leik liðanna í undanúrslitum bikarsins í Tórínó og fagnaði með því að sussa á stuðningsmenn Juventus, sem höfðu beitt hann kynþáttaníði nær allan leikinn.

Fyrir fagnið fékk Lukaku sitt annað gula spjald og þar með rautt, sem hefði þýtt leikbann í síðari leiknum, en ítalska knattspyrnusambandið dró bannið síðar til baka.

Stuðningsmenn Inter urðu sér einnig til skammar fyrr í leiknum þegar þeir sungu um leik Liverpool og Juventus í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 1985, þegar 39 stuðningsmenn Juventus týndu lífinu í óeirðum stuðningsmanna Liverpool á Heysel-vellinum í Belgíu.

Rannsókn stendur enn yfir vegna þeirra söngva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert