Xavi Hernández, knattspyrnustjóri Barcelona, var ómyrkur í máli eftir 1:2-tap liðsins fyrir Rayo Vallecano í spænsku 1. deildinni í gær.
„Skilaboðin eru skýr: Það er hellingur eftir. Það er ekkert ráðið enn og við erum ekki búnir að vinna deildina, eins og ég hef margoft sagt,“ sagði Xavi á blaðamannafundi eftir leik.
Barcelona er þrátt fyrir tapið með 11 stiga forskot á ríkjandi Spánarmeistara Real Madríd þegar sjö umferðir eru óleiknar.
Börsungar hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum en hefur það verið þeim til happs að Madrídingar hafa verið að tapa stigum á sama tíma.
„Við spiluðum ekki vel, við vorum ekki ánægðir á neinum tímapunkti í leiknum. Okkur var refsað grimmilega í seinna markinu en við reyndum að jafna metin undir lokin.
Við höfðum trú og sýndum hugrekki en Rayo stóð uppi sem sigurvegari. Þeir pressuðu okkur stíft þannig að okkur leið aldrei vel. Þetta er tap sem fer í taugarnar á okkur,“ bætti ósáttur Xavi við.