Valencia er komið upp úr fallsæti í spænsku 1. deildinni í fótbolta eftir 2:1-heimasigur á Valladolid í kvöld.
Cyle Larin kom Valladolid yfir á 6. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks, en Valencia var sterkari aðilinn í seinni hálfleik.
Mouctar Diakhaby jafnaði fyrir Valencia á 60. mínútu og hinn 19 ára gamli Javier Guerra skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Er hann uppalinn hjá félaginu og var markið það fyrsta sem hann skorar fyrir aðalliðið.
Með sigrinum fór Valencia upp úr fallsæti. Er liðið nú með 33 stig í 16. sæti. Valadolid er í 14. sæti með 35.
Á sama tíma hafði Villarreal betur gegn Espanyol á heimavelli, 4:2. Javi Puado kom Espanyol yfir á 45. mínútu en Étienne Capoue og Dani Parejo snéru taflinu við, áður en Joselu jafnaði í 2:2 á 73. mínútu.
Villarreal var hins vegar sterkari aðilinn undir lokin því Nicolas Jackson kom Villarreal aftur yfir á 80. mínútu og Capoue skoraði sitt annað mark og fjórða mark Villarreal í uppbótartíma.
Villarreal er í fimmta sæti með 50 stig og Espanyol í 19. og næstneðsta sæti með 28 stig.