Napólí þarf að bíða enn um sinn

Boulaye Dia í baráttu við Stanislav Lobotka í dag.
Boulaye Dia í baráttu við Stanislav Lobotka í dag. AFP/Filippo Monteforte

Napóli fór illa að ráði sínu í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Salernitana í dag. Með sigri hefði liðið tryggt sér Ítalíumeistaratitilinn í fyrsta sinn í 33 ár.

Mathías Olivera kom heimamönnum í Napóli í forystu eftir rúmlega klukkutíma leik.

Sex mínútum fyrir leikslok spillti Boulaye Dia hins vegar gleðinni fyrir Napóli er hann jafnaði metin.

Þar við sat og eiga því bæði Lazio og Juventus enn tölfræðilegan möguleika á að ná Napólí að stigum.

Það verður þó að teljast ansi ólíklegt þar sem toppliðið er með 18 stiga forskot á Lazio og 20 stiga forskot á Juventus, sem á auk þess leik til góða.

Napólí þarf því að bíða aðeins með fagnaðarlætin og fær annað tækifæri til þess að tryggja sér titilinn á fimmtudagskvöld, þegar liðið heimsækir Udinese.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert