Óvænt tap meistaranna

Kylian Mbappé, sem skoraði mark PSG, svekktur í leiknum í …
Kylian Mbappé, sem skoraði mark PSG, svekktur í leiknum í dag. AFP/Franck Fife

París Saint-Germain tapaði óvænt á heimavelli, 1:3, fyrir Lorient er liðin áttust við í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í dag.

Enzo Le Fee kom gestunum í Lorient í forystu eftir stundarfjórðungs leik.

Fimm mínútum síðar varð PSG fyrir áfalli þegar Achraf Hakimi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Parísar-liðið lék því einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks.

Þrátt fyrir að vera einum færri jafnaði Kylian Mbappé metin fyrir heimamenn eftir tæplega hálftíma leik.

Áður en fyrri hálfleikur var úti kom Darlin Yangwa Lorient hins vegar í forystu á ný.

Einum færri reyndi PSG hvað það gat til þess að jafna metin en allt kom fyrir ekki.

Þess í stað innsiglaði Bamba Dieng frábæran sigur Lorient með þriðja marki gestanna einni mínútu fyrir leikslok.

Ríkjandi Frakklandsmeistarar PSG eru áfram á toppi frönsku deildarinnar með átta stiga forskot á Marseille, sem á hins vegar leik til góða.

Lorient siglir lygnan sjó um miðja deild þar sem liðið er í tíunda sæti, ekki í neinni fallhættu og á litla möguleika á að krækja í Evrópusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert