Yngsti leikmaðurinn í sögu Barcelona

Lamine Yamal í leiknum í kvöld.
Lamine Yamal í leiknum í kvöld. AFP/Jesep Lago

Barcelona vann í kvöld 4:0-heimasigur á Real Betis í spænsku 1. deildinni í fótbolta.

Andreas Christensen, Robert Lewandowski og Raphinha komu Barcelona í 3:0 í fyrri hálfleik og síðasta markið var sjálfsmark á 82. mínútu.

Á 83. mínútu skráði Lamine Yamal sig í sögubækur spænska risans, því hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins þegar hann kom inn á sem varamaður. Yamal er aðeins 15 ára og 285 daga gamall.

Erkifjendurnir í Real Madrid unnu 4:2-heimasigur á Almería. Karim Benzema skoraði þrennu á fyrstu 42 mínútunum, áður en Lázaro minnkaði muninn í blálok fyrri hálfleiks.

Rodrygo gerði fjórða mark Real á 47. mínútu en Lucas Robertone lagaði stöðuna á 61. mínútu og tveggja marka sigur Real varð raunin.

Barcelona er í toppsætinu með 79 stig, ellefu stigum meira en Real, þegar sex umferðir eru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert