Sveindís í úrslit Meistaradeildarinnar eftir framlengda spennu

Katie McCabe og Sveindís Jane Jónsdóttir eigast við í kvöld.
Katie McCabe og Sveindís Jane Jónsdóttir eigast við í kvöld. AFP/Ben Stansall

Wolfsburg tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna með því að leggja Arsenal að velli, 3:2, eftir framlengdan annan leik liðanna á Emirates-vellinum í Lundúnum.

Fyrri leiknum í Wolfsburg lauk 2:2, þar sem íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði og lagði upp, og Wolfsburg vann einvígið því samanlagt 5:4.

Í kvöld kom Stina Blackstenius Arsenal í forystu eftir aðeins ellefu mínútna leik. Skömmu fyrir leikhlé jafnaði Jill Roord hins vegar metin fyrir Wolfsburg.

Eftir tæplega klukkutíma leik kom Alexandra Popp gestunum frá Þýskalandi í forystu en stundarfjórðungi fyrir leikslok jafnaði Jennifer Beattie metin fyrir Arsenal.

Staðan orðin 2:2 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni stefndi allt í vítaspyrnukeppni þegar Lotte Wubben-Moy gerði sig seka um hræðileg mistök í öftustu línu Arsenal er hún missti boltann til Jule Brand, sem renndi honum þvert fyrir markið á Pauline Bremer, sem kom boltanum yfir marklínuna á 119. mínútu.

Brand hafði komið inn á sem varamaður á 101. mínútu fyrir Sveindísi Jane og Bremer kom inn á sam varamaður á 90. mínútu.

Sveindís Jane er aðeins þriðji Íslendingurinn sem kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í knattspyrnu.

Áður hafði Sara Björk Gunnarsdóttir gert það í tvígang með Lyon og unnið Meistaradeildina í bæði skiptin. Skoraði hún í úrslitaleik gegn Wolfsburg í fyrra skiptið en kom ekki við sögu í það síðara. Auk þess hafði hún áður leikið í úrslitaleiknum með Wolfsburg gegn Lyon en var þar í tapliði.

Eiður Smári Guðjohnsen var þá á mála hjá Barcelona árið 2009 þegar liðið vann Meistaradeildina, en kom þó ekki við sögu í úrslitaleiknum.

Leikinn mátti sjá í beinni útsendingu hér: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert