Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, segir að tilboðin sem sambandið hefur fengið í sýningarréttinn fyrir HM kvenna í sumar, frá fimm stærstu knattspyrnuþjóðum Evrópu, sé löðrungur í andlit allra kvenna.
Svo gæti farið að mótið verði ekki sýnt á Englandi, í Frakklandi, á Ítalíu, Spáni og Þýskalandi en tilboðin sem bárust frá þessum þjóðum hafi verið á bilinu 800.000 - 8 milljónir punda.
Sýningarrétturinn á heimsmeistaramóti karla var að kosta frá 120 milljónum punda til 220 milljónir punda, en HM kvenna fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.
„Það er siðferðislega skylda okkar hjá FIFA að selja ekki sýningarréttinn að mótinu á undirverði,“ sagði Infantino í samtali við Guardian.
„Áhorfendatölurnar eru 50-60% lægri en á heimsmeistaramót karla en samt dettur einhverjum í hug að bjóða 20% af því sem boðið var í sýningarréttinn fyrir HM karla sem er hneyksli.
Þetta er löðrungur í andlit allra kvenna og allra þeirra leikmanna sem munu taka þátt á mótinu í sumar,“ bætti Infantino við.