Messi settur til hliðar hjá París SG

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi hefur verið settur til hliðar hjá félagsliði sínu París SG í Frakklandi eftir að hann mætti ekki á æfingu franska liðsins í morgun.

Það er franski miðillinn RMC Sport sem greinir frá þessu en Messi, sem er 35 ára gamall, flaug til Sádi-Arabíu í morgun í stað þess að mæta á aukaæfinguna sem boðuð var eftir óvænt 1:3-tap gegn Lorient á heimavelli á sunnudaginn.

Í frétt RMC Sport kemur meðal annars fram að Messi fái ekki að æfa með félaginu næstu tvær vikurnar en félagið ætlar ekki að tjá sig frekar um málið.

Messi missir því af næstu tveimur leikjum París SG; gegn Troyes á sunnudaginn og svo gegn Ajaccio, laugardaginn 13. maí.

Messi gekk til liðs við París SG frá Barcelona sumarið 2021 en hann hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu undanfarnar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert