Real Madríd tapaði og Barcelona hársbreidd frá titlinum

Úr leiknum í Sociedad í kvöld.
Úr leiknum í Sociedad í kvöld. AFP/Ander Gillenea

Real Madríd er komið langleiðina með að segja sig úr titilbaráttunni við Barcelona eftir 2:0-tap fyrir Real Sociedad í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Takefusa Kubo, sem var keyptur frá Real Madríd síðastliðið sumar, kom heimamönnum í Sociedad á bragðið strax í upphafi síðari hálfleiks.

Eftir rúmlega klukkutíma leik urðu gestirnir frá Madríd fyrir frekara áfalli þegar Dani Carvajal fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Fimm mínútum fyrir leikslok innsiglaði Ander Barrenetxea svo sigur heimamanna með öðru marki Sociedad.

Real Madríd er enn í öðru sæti deildarinnar en er 14 stigum á eftir toppliði Barcelona þegar einungis fimm umferðir eru óleiknar.

Börsungar geta því með sigri í næsta leik tryggt sér spænska meistaratitilinn.

Sociedad heldur þá kyrru fyrir í fjórða sæti, þar sem liðið er með átta stiga forskot á Villarreal í fimmta sæti. Villarreal á þó leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert