Knattspyrnumaðurinn Sævar Atli Magnússon hefur verið valinn í ellefu manna úrvalslið dönsku úrvalsdeildarinnar í aprílmánuði fyrir frammistöðu sína með Lyngby.
Það er Tipsbladet sem velur ellefu bestu leikmennina í deildinni í apríl og Sævar fær sæti þar sem fremsti miðjumaður.
Í umsögn um Sævar er sagt að hann hafi bæði skorað og lagt upp mörk í síðasta mánuði. Lyngby hafi ekki tekist að koma sér úr fallsæti deildarinnar en Íslendingurinn hafi sýnt og sannað að hann eigi svo sannarlega heima í þessari deild.
Sævar Atli er 22 ára gamall og kom til Lyngby frá Leikni í Reykjavík fyrir tímabilið 2021-22, tók þá þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeildina þar sem það berst nú erfiðri baráttu fyrir lífi sínu. Sævar lék sína fyrstu A-landsleiki í janúar, gegn Eistlandi og Svíþjóð, og var í hópnum þegar Ísland mætti Bosníu og Liechtenstein í fyrstu leikjunum í undankeppni EM í marsmánuði.