Neil Warnock, knattspyrnustjórinn þaulreyndi, kveðst aldrei hafa verið stoltari en nú eftir að hafa forðað Huddersfield Town frá falli úr ensku B-deildinni í knattspyrnu niður í C-deildina.
Warnock var hættur þjálfun þegar honum bauðst að taka við Huddersfield í febrúar síðastliðnum. Þá var liðið í vondum málum í fallsæti í B-deildinni, sjö stigum frá öruggu sæti þegar 15 leikir voru eftir.
Í gærkvöldi hafði liðið betur gegn Sheffield United, 1:0, og þarf því ekki að hafa áhyggjur af falli í lokaumferð deildarinnar á mánudag. Reading, Blackpool og Wigan eru fallin niður í C-deild.
Samstarfsmaður Warnock til margra ára, Ronnie Jepson aðstoðarþjálfari Huddersfield, varaði hann við að taka við liðinu þar sem honum litist hræðilega á það sem hann hafi séð í 0:3-tapi Huddersfield fyrir Stoke City, degi áður en Warnock tók formlega við.
„Ég held að ég hafi aldrei verið stoltari. Þetta er risa afrek,“ sagði Warnock á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Sheffield United í gærkvöldi.
„Þegar Ronnie hringdi í mig eftir Stoke leikinn sagði hann: „Stjóri, ertu viss? Þetta er versta lið sem ég hef nokkru sinni séð í B-deildinni“,“ bætti hinn 74 ára gamli stjóri við.
Hann hyggst ekki halda áfram að þjálfa Huddersfield á næsta tímabili en útilokar þó ekki endurkomu í þjálfun, en þá einungis frá og með febrúar á næsta ári.
„Annað starf? Bara frá febrúar!“ sagði Warnock glettinn.