Fóru á kostum hjá Íslendingaliðinu

Hlín Eiríksdóttir lagði upp tvö mörk í kvöld.
Hlín Eiríksdóttir lagði upp tvö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlín Eiríksdóttir og Amanda Andradóttir, landsliðskonur í knattspyrnu, létu afar vel að sér kveða hjá Kristianstad, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, þegar liðið vann öruggan 4:1-sigur á Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Hlín lék allan leikinn á hægri kanti Kristianstad og lagði upp fyrstu tvö mörkin, á 14. og 66. mínútu.

Skömmu eftir annað markið, á 69. mínútu, kom Amanda inn á sem varamaður.

Fimm mínútum síðar minnkaði Brommapojkarna muninn en Amanda kom Kristianstad aftur í tveggja marka forystu örskömmu síðar, á 78. mínútu.

Skömmu fyrir leikslok skoraði Kristianstad svo fjórða mark sitt og þægilegur þriggja marka sigur var niðurstaðan.

Ríkjandi Svíþjóðarmeistarar Rosengård unnu góðan 2:0-sigur á Norrköping í Íslendingaslag.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård og Diljá Ýr Zomers lék fyrstu 63 mínúturnar á hægri kantinum hjá Norrköping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert