Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson hefur leitað ráða hjá FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandinu, vegna vangoldinna launa hjá Atromitos í Grikklandi.
Hjörvar Hafliðason sagði frá í hlaðvarpi sínu, Dr. Football. „Í byrjun árs hafði Viðar Örn samband við FIFA, þar sem hann átti inni laun.
Hann var ekki að fara að láta það yfir sig ganga. Eftir að Viðar hafði samband við FIFA hefur Chris Coleman ekki mátt horfa á hann,“ sagði Hjörvar m.a. í þættinum.
Viðar hefur leikið 31 leik á tímabilinu í grísku úrvalsdeildinni og skorað í þeim sex mörk. Hann hefur hins vegar mikið þurft að verma varamannabekkinn að undanförnu og fengið fáar mínútur í síðustu leikjum.