Knattspyrnumaðurinn Arnór Sigurðsson verður væntanlega ekki leikmaður Norrköping í Svíþjóð mikið lengur, en hann hefur verið einn besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar undanfarna mánuði.
„Við njótum hvers dags sem hann er leikmaðurinn okkar. Við gerum allt hvað við getum til að halda honum hér, en við skiljum að önnur félög séu áhugasöm,“ sagði Tony Martinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Norrköping, við Fotbollskanalen.
Fotbolldirekt segir Arnór hins vegar þegar hafa tekið ákvörðun um að yfirgefa félagið og fara í stærri deild þegar félagaskiptaglugginn opnast í næsta mánuði.
Arnór, sem er 23 ára, hefur skorað níu mörk í 17 leikjum með Norrköping síðan hann kom aftur til félagsins á síðasta ári. Arnór er samningsbundinn CSKA Moskvu í Rússlandi, en hefur lítinn áhuga á að snúa aftur í rússnesku höfuðborgina.