Króatíski miðjumaðurinn Mateo Kovacic mun að öllum líkindum yfirgefa enska knattspyrnufélagið Chelsea eftir leiktíðina.
The Guardian greinir frá að Bayern München, Manchester City og Manchester United hafi öll áhuga á Kovacic, sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Lundúnafélagið.
Chelsea, sem leikur ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð, þarf að minnka leikmannahópinn sinn, eftir fjölmörg leikmannakaup síðan Todd Boehly eignaðist félagið.
Boehly og félagar hafa lítinn áhuga á að halda leikmönnum sem eru aðeins með ár eftir af samningnum, ef illa gengur að semja.
Sömu sögu er að segja um Mason Mount. Mount á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea og Liverpool, Arsenal, Bayern München og Manchester United hafa öll áhuga á Englendingnum.
Kovacic hefur átt góðu gengi að fagna hjá Chelsea, síðan hann kom til félagsins frá Real Madrid árið 2018, og orðið Evrópumeistari, Evrópudeildameistari og heimsmeistari félagsliða með enska liðinu.