Fjöldinn allur af leikjum fór fram í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt. Íslendingar komu við sögu í þremur þeirra.
Montreal vann Toronto, 2:0, í slagnum um Kanada en þrjú lið frá Kanada spila í MLS-deildinni. Róbert Orri Þorkelsson spilaði fyrri hálfleikinn í liði Montreal en þetta var fyrsti deildarleikurinn sem Róbert byrjar inn á síðan hann kom til félagsins frá Breiðabliki fyrir tveimur árum. Montreal situr í 7. sæti Austurdeildar með 15 stig.
D.C. United gerði jafntefli við Nashville, 1:1. Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í vörn D.C. United og komst vel frá sínu. D.C. United situr í 9. sæti Austurdeildar með 15 stig.
Dagur Dan Þórhallsson kom inn á á 75. mínútu þegar Orlando City gerði jafntefli við Columbus Crew, 2:2. Orlando City situr í 11. sæti Austurdeildar með 15 stig.
Þorleifur Úlfarsson, leikmaður Houston Dynamo, var ónotaður varamaður í markalausu jafntefli gegn Seattle Sounders. Houston Dynamo situr í 7. sæti Vesturdeildar með 14 stig.