Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að félagið muni gera allt sem í valdi þess stendur til þess að fá argentínska knattspyrnumanninn Lionel Messi til baka.
Messi hefur leikið með París SG í Frakklandi undanfarin tvö tímabil eftir að hafa verið á mála hjá Barcelona í 21 ár þar á undan.
Hann er á förum frá PSG í sumar og hefur verið sterklega orðaður við för til Al-Hilal í Sádi-Arabíu.
„Við munum gera allt sem við getum til þess að koma Leo Messi aftur til Barcelona. Leo er enn þá í París í óþægilegri aðstöðu. Ég myndi ekki vilja ónáða hann á þessari stundu,“ sagði Laporta í samtali Jijantes FC, Twitch-rás blaðamannsins Gerard Romero.
Barcelona tryggði sér spænska meistaratitilinn með 4:2-sigri á Espanyol um helgina.
„Við munum reyna að bæta liðið á alla kanta. Ég hef rætt við Messi um málið, það var mjög indælt. Við höfum bætt samband okkar.
Messi vill fara til Barca, honum finnst sem félagið sé heimili hans en að ræða um þetta núna myndi ekki hjálpa honum neitt.
Sádi-Arabía? Barca er Barca. Í Arabíu eru þeir að standa sig vel og fjárfesta en ég ítreka að Barca er heimili hans,“ bætti Laporta við.
Til þess að eiga möguleika á að semja við Messi þarf Barcelona að lækka launakostnað sinn verulega. Öðruvísi samþykkir spænska 1. deildin ekki skiptin.