Birkir tók þátt í mögnuðum viðsnúningi

Birkir Bjarnason er kominn vel af stað með Viking í …
Birkir Bjarnason er kominn vel af stað með Viking í Noregi. Ljósmynd/Robert Spasovski

Viking vann magnaðan sigur á Odd, 3:2, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag eftir að hafa verið tveimur mörkum undir á heimavelli í hálfleik.

Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður hjá Viking í hálfleik en þá snerist dæmið við. Zlatko Tripic jafnaði metin fyrir Víkingana úr tveimur vítaspyrnum á 62. og 81. mínútu og Sander Svendsen skoraði sigurmarkið á 87. mínútu.

Birkir átti stóran þátt í undirbúningi sigurmarksins en áður hafði glæsilegt skallamark hans verið dæmt af vegna rangstöðu.

Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark Viking að vanda en liðið komst með sigrinum upp í annað sætið með 14 stig, jafnmörg og Brann sem er með lakari markatölu.

Bodö/Glimt vann Tromsö á útivelli í Norðurlandsslag, 3:2, og er komið með átta stiga forystu á toppi deildarinnar. Hilmir Rafn Mikaelsson lék ekki með Tromsö vegna meiðsla.

Kristall Máni Ingason lék fyrstu 59 mínúturnar með Rosenborg sem lyfti sér upp í 11. sætið með sigri á Haugesund, 1:0. Ísak Snær Þorvaldsson var ekki með Rosenborg vegna meiðsla en þetta var aðeins annar sigur Þrándheimsliðsins í fyrstu átta leikjunum.

Brynjar Ingi Bjarnason lék allan leikinn í vörn HamKam í ósigri gegn hans gamla félagi, Vålerenga, 3:0, í Ósló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert