Knattspyrnumennirnir Sadio Mané og Joao Cancelo, leikmenn Bayern München, eru á förum frá félaginu í sumar.
Sky Sport í Þýskalandi greinir frá því að Mané verði seldur í sumar, en hann var einungis keyptur frá Liverpool síðasta sumar.
Mané hefur verið í litlu hlutverki hjá liðinu eftir að Thomas Tuchel tók við stjórnartaumunum fyrir tæpum tveimur mánuðum og ekki hjálpaði til þegar hann kýldi samherja sinn Leroy Sané eftir tap liðsins fyrir Manchester City í Meistaradeild Evrópu.
Mané er orðaður við endurkomu í ensku úrvalsdeildina og samkvæmt Sky Sport er Newcastle United líklegasti áfangastaðurinn.
Cancelo, sem kom að láni frá Man. City í janúar síðastliðnum, verður sömuleiðis ekki áfram.
Bæjarar telja sig ekki hafa efni á því að greiða upphæðina sem kveðið er á um í forkaupsréttinum sem var hluti af lánssamningnum, 70 milljónir evra.
Jafnvel þó Man. City væri til í að semja um lægra kaupverð, á bilinu 30 til 40 milljónir evra, vill Bayern ekki setjast að samningaborðinu.