Í áfalli yfir gæðaleysi Mílanó-liðanna

Graeme Souness er ekki hrifinn af Inter og AC Milan.
Graeme Souness er ekki hrifinn af Inter og AC Milan. AFP/Gabriel Bouys

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Graeme Souness velkist ekki í nokkrum vafa um að komið sé að því að Manchester City hampi bikarnum í Meistaradeild Evrópu í ár.

Man. City gerði 1:1-jafntefli við ríkjandi Evrópumeistara Real Madríd þar í borg fyrir viku síðan og mætast liðin í öðrum leik sínum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í Manchester annað kvöld.

Í hinum undanúrslitaleiknum mættust Mílanó-liðin AC Milan og Inter Mílanó, þar sem síðarnefnda liðið vann 2:0.

Í pistli á Daily Mail segir Souness það vissulega ávallt erfitt að spá fyrir um hvaða lið muni standa uppi sem sigurvegari í hvaða keppni sem er þar sem heppni getur komið til skjalanna í útsláttarkeppni.

„En ég fer ekki í grafgötur með þetta. Ég held virkilega að stundin sé runnin upp hjá Manchester City í Meistaradeildinni,“ skrifaði Skotinn, sem er ekki beint hrifinn af Mílanó-liðunum.

„Það er að hluta til vegna þess að við getum afskrifað ítölsku liðin sem léku undanúrslitaleik síðastliðið miðvikudagskvöld. Ég verð að segja að ég var í áfalli að sjá tvö lið sem eru svona miðlungs takandi þátt á þessu stigi.

Ítölsk knattspyrna hefur átt í ákveðnum fjárhagsvandræðum en ég var undrandi á gæðaleysinu sem mátti sjá í einni bestu keppni heims. Lélegar fyrstu snertingar. Leikmenn stöðugt að gefa boltann ódýrt frá sér undir lítilli pressu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert