Uppselt á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn

Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með Wolfsburg gegn PSG í …
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með Wolfsburg gegn PSG í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í mars síðastliðnum. AFP/Odd Andersen

Uppselt er á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í fyrsta sinn síðan Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, breytti fyrirkomulagi og ímynd keppninnar fyrir 14 árum síðan.

Áður hét keppnin Meistarakeppni Evrópu og hefur farið stækkandi ár hvert síðan nafninu var breytt.

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg mæta Barcelona í úrslitaleiknum á Philips-vellinum í Eindhoven, heimavelli hollenska félagsins PSV, þann 3. júní næstkomandi.

Í tilkynningu frá UEFA segir að allir 34.100 miðarnir sem hafi verið til sölu hafi þegar verið seldir.

Þar með verður áhorfendamet á kvennaleik slegið í Hollandi, en metið var 30.640 áhorfendur í vináttulandsleik milli Hollands og Ástralíu á sama velli.

„Þetta er í fyrsta sinn sem það selst upp að fullu á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu kvenna. Og það eru enn nokkrar vikur til stefnu, sem er annað merki um að við erum komin á annað stig,“ sagði Nadine Kessler, framkvæmdastjóri kvennaknattspyrnu hjá UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert