Leonardo Bonucci, miðvörður Juventus og ítalska landsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt að skórnir fari upp í hillu að næsta tímabili loknu.
Bonucci er 36 ára gamall og hefur á ferlinum unnið ítalska meistaratitilinn átta sinnum með Juventus.
Hann skoraði þá mark Ítalíu í úrslitaleik gegn Englandi á EM 2020, þar sem Ítalir urðu Evrópumeistarar með sigri í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1:1 að lokinni framlengingu.
Samningur Bonucci við Juventus rennur út sumarið 2024 og þá lætur hann staðar numið.
Bonucci hefur leikið með Juventus frá árinu 2010, að undanskildu tímabilinu 2017/2018, þegar hann lék með AC Milan.