Tekur fram landsliðsskóna eftir spjall við forsetann

Pierre-Emerick Aubameyang í leik með Chelsea í síðasta mánuði.
Pierre-Emerick Aubameyang í leik með Chelsea í síðasta mánuði. AFP/Adrian Dennis

Knattspyrnumaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang, sóknarmaður Chelsea, hefur ákveðið að taka landsliðsskóna af hillunni og leika fyrir landslið Gabon á ný.

Aubameyang hefur skorað 30 mörk í 72 landsleikjum fyrir Gabon og er markahæsti leikmaður í sögu liðsins.

Í maí á síðasta ári tilkynnti hann að landsliðsskórnir væru komnir upp í hillu en eftir að hafa rætt við Ali Bongo Ondimba, forseta Gabons, á dögunum sannfærðist Aubameyang um að snúa aftur.

„Fyrir nokkrum dögum hlotnaðist mér sá mikli heiður að hitta forseta lýðveldisins, Ali Bongo Ondimba, og hlýddi á vitur orð hans þar sem var sem faðir væri að tala við son sinn.

Eftir að hafa rætt við hann hef ég ákveðið að gefa kost á mér á ný fyrir þjóð mína og þjálfarann Patrice Neveu,“ skrifaði hinn 33 ára gamli Aubameyang á Instagram-aðgangi sínum.

Í næsta mánuði mætir Gabon liði Kongó. Með sigri í þeim leik getur Gabon tryggt sér sæti á Afríkumótinu.

Aubameyang hefur verið úti í kuldanum hjá Chelsea stærstan hluta yfirstandandi tímabils og hefur verið orðaður við endurkomu til Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert